Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 418. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 631  —  418. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breytingu á l. nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum.

Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    25. mars sl. gerði heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar samkomulag við formann Öryrkjabandalagsins um hækkun grunnlífeyris öryrkja. Um er að ræða margra ára baráttumál Öryrkjabandalagsins þar sem áhersla var lögð á hækkun grunnlífeyris fyrir þá sem yngstir verða öryrkjar. Í fréttatilkynningu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um samkomulagið frá 25. mars 2003, sbr. fylgiskjal VI, kom fram að hækkunin skyldi taka gildi 1. janúar 2004. Einnig kom fram að ríkisstjórnin hefði samþykkt samkomulagið á fundi þennan sama dag og jafnframt að gert væri ráð fyrir að skipaður yrði starfshópur sem gerði endanlegar tillögur að breytingum á lögum um almannatryggingar í samræmi við samkomulagið sem fæli í sér eftirfarandi:
          Stigið yrði fyrsta skrefið til viðurkenningar á hinni margvíslegu sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni.
          Þeir sem yngstir verða öryrkjar til lífstíðar fengju þannig hækkun á núverandi grunnlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins sem næmi allt að tvöföldun grunnlífeyris.
          Þeir sem verða öryrkjar seinna á lífsleiðinni fengju hins vegar hækkun á núverandi grunnlífeyri með hliðsjón af aldri, þannig að þeir sem verða öryrkjar 67 ára fengju grunnlífeyri sem næmi sömu upphæð og ellilífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins.
    Þá kom jafnframt fram í fréttatilkynningunni að samkvæmt útreikningum sérfræðinga ráðuneytisins yrði kostnaðurinn við þessa hækkun grunnlífeyris og kerfisbreytinguna rúmur einn milljarður kr. á ári. Í útreikningum Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. fylgiskjal XII, var hins vegar gert ráð fyrir kostnaði vegna þessa að upphæð 1.528,8 millj. kr. og þar var gert ráð fyrir 16–17 ára bótaþegum.

Samkomulagið.
    Talsverðar deilur hafa orðið um hvað hafi falist í samkomulagi heilbrigðisráðherra og Öryrkjabandalagsins. Því er rétt að athuga hvað fjölmiðlar sögðu felast í samkomulaginu eftir blaðamannafund heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og formanns Öryrkjabandalagsins sem haldinn var 25. mars 2003.
    Í umfjöllun Morgunblaðsins 26. mars 2003, sbr. fylgiskjal III, daginn eftir blaðamannafundinn segir: „Samkvæmt samkomulaginu nemur hækkunin/lækkunin rúmum 400 krónum fyrir hvert ár á aldursskeiðinu 18–67 ára, eftir því hvenær viðkomandi er metinn til örorku. Sá sem verður öryrki 18 ára eða yngri fær í dag 20.630 kr. í grunnlífeyri en fengi samkvæmt samkomulaginu 41.260 kr. Sá sem verður fyrir örorku 56–7 ára gamall fengi rúmlega 4 þúsund króna hækkun, 46–7 ára fengi rúmlega 8 þúsund og sá sem er 36–7 tæpar þrettán þúsund. Sá sem metinn er til örorku 26–7 ára fengi tæpar 17 þúsund og hjá yngsta hópnum er hækkunin sem fyrr segir tæpar 21 þúsund kr.“

    Samkvæmt frumvarpinu mun hins vegar 56 ára öryrki fá aldurstengda örorkuuppbót sem nemur 516 kr. en hefði fengið rúmar 4 þús. kr. ef samkomulaginu hefði verið fylgt eftir.
    Ekki er heldur samræmi milli frumvarpsins og umfjöllunar Ríkisútvarpsins um samkomulagið frá 25. mars 2003, sbr. fylgiskjal VII. Í frétt Ríkisútvarpsins sagði: „Grunnlífeyrir þeirra sem verða öryrkjar 67 ára verður sá sami og hjá ellilífeyrisþegum. Hann hækkar hins vegar um rúmar 400 krónur á ári og verður hærri því yngri sem viðkomandi missir starfsorkuna.“
    Svipað kom fram í fréttum Stöðvar 2, sbr. fylgiskjal VIII, 25. mars 2003 en þar var sagt: „Grunnlífeyrir til þeirra sem verða fyrir örorku 18 ára og yngri hækkar um 20 þúsund krónur eða tvöfaldast frá því sem nú er. Hækkunin verður minni í réttu hlutfalli við aldur öryrkja sem nemur rúmum 400 krónum fyrir hvert aldursár uns grunnlífeyri ellilífeyris er náð við 67 ára aldur.“
    Þessum skilningi Morgunblaðsins, Ríkisútvarpsins eða Stöðvar 2 var ekki mótmælt af hálfu ráðherra eða ríkisstjórnarflokkanna en ljóst er að framlagt frumvarp er ekki í samræmi við lýsingar fjölmiðlanna á samkomulaginu eftir blaðamannafund heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og formanns Öryrkjabandalagsins.
    Samkvæmt frumvarpinu lækkar aldurstengd örorkuuppbót talsvert meira en um rúmar 400 kr. fyrir hvert aldursbil. Samkvæmt útreikningum Tryggingastofnunar ríkisins og því samkomulagi sem Öryrkjabandalagið, Morgunblaðið, Ríkisútvarpið og Stöð 2 töldu að komist hefði á milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Öryrkjabandalagsins átti 44 ára gamall öryrki að fá aldurstengda örorkuuppbót að upphæð 9.684 kr. en samkvæmt frumvarpinu fær viðkomandi 1.032 kr.
    Í frétt í Morgunblaðinu 28. nóvember 2003 sbr. fylgiskjal V, kom fram skilningur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á samkomulaginu. Þar stóð m.a.: „Heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp til að útfæra breytingarnar og gera endanlegar tillögur að breytingum á lögum. Fór hópurinn m.a. yfir kostnað við breytingarnar og fékk ráðherra nýtt kostnaðarmat í hendur þar sem í ljós kom að heildarkostnaðurinn er talinn um 1.500 milljónir kr. Niðurstaðan var því sú að sögn ráðherra að greiða þyrfti hækkanirnar sem um var samið í áföngum, 66% koma til greiðslu um næstu áramót og afgangurinn ári síðar.“
    Í sömu frétt Morgunblaðisns er haft eftir ráðherra: „Ég stend að fullu við það sem ég vissi réttast þá [þegar samkomulagið var gert]. Síðan hef ég einsett mér að uppfylla samkomulagið. Við munum breyta lögum í samræmi við það sem samkomulagið kveður á um, við munum borga strax um áramótin það sem samkomulagið hljóðaði upp á þegar það var gert og greiða síðan viðbótina. Kerfisbreytingin verður lögfest og hún er komin til að vera.“
    Í frétt Morgunblaðsins 27. nóvember sl., sbr. fylgiskjal IV, kemur fram: „ Í ræðu Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra á Alþingi kom fram að einungis verður staðið við tvo þriðju samkomulagsins 1. janúar 2004, og muni afgangurinn koma til framkvæmda ári síðar. Jón Kristjánsson segir í samtali við Morgunblaðið að áætlað hafi verið að verja í þetta einum milljarði króna, og gert ráð fyrir því í fjárlögum. Þegar nefnd sem starfaði að málinu mat kostnaðinn hafi komið í ljós að það vantaði 500 milljónir uppá. „Það þýðir það að 1. janúar [2004] getum við ekki farið í nema tvo þriðju. Síðan er meiningin, og ég vona að það takist um það samkomulag, að 2005 komi afgangurinn til framkvæmda,“ segir Jón. Hann segir að heimildir á fjárlögum séu eingöngu fyrir einum milljarði sem samkomulagið gerði ráð fyrir. „Það var í samræmi við þá kostnaðaráætlun sem lá fyrir þegar það var gert.““
    Af ummælum ráðherra er ljóst að hann taldi samkomulagið lúta að fyrirkomulagi sem gerði ráð fyrir 421 kr. lækkun fyrir hvert aldursbil og sem kostaði þar af leiðandi 1.528,8 millj. kr. en ekki 1.058 millj. kr. eins og fyrirliggjandi frumvarp hans hljóðar upp á.
    Skilningur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á efni samkomulagsins kom einnig í ljós í umræðum um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2004 á Alþingi 25. nóvember sl. en þar sagði hann m.a.: „Samkomulagið markaði tímamót að því leyti að þar er um breytt kerfi að ræða. Eins og hv. þm. gat um vinnur nefnd að útfærslu þessa samkomulags og mun væntanlega ljúka því verki á næstu dögum. Miðað við þær heimildir sem ég hef þarf hins vegar að áfangaskipta þessu samkomulagi. En það stendur ekki til annað en að standa við það eins og það stendur. Hins vegar gæti þurft að áfangaskipta því þannig að fyrsti áfangi tæki gildi 1. jan. 2004, eins og stendur í samkomulaginu, og síðan verði framhaldið fært í lög og menn meti stöðuna þegar líður á árið í ljósi reynslunnar og hvernig menn uppfylli samkomulagið.“
    Það er því ljóst að ráðherra lítur svo á að hann sé að framfylgja samkomulagi í áföngum án þess að um áfangaskiptinguna hefði verið samið. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins kom skýrt fram að hækkun samkvæmt samkomulaginu skyldi koma til framkvæmda 1. janúar 2004. Það er svikið með frumvarpinu.
    Á fundi heilbrigðis- og trygginganefndar var óskað eftir að fá tillögur starfshóps ráðuneytisins til þess að sjá hvað haft var til hliðsjónar við samningu frumvarpsins. Þar sögðu embættismenn ráðuneytisins að ekki hefðu verið gerðar formlegar tillögur til ráðherra vegna málsins. Það er ekki í samræmi við upplýsingar sem fram hafa komið í þinginu, m.a. í ræðu heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra frá 4. desember 2003 en þar sagði hann: „Varðandi það hvaða tillögur starfshópurinn sem ég skipaði í byrjun maí skilaði þá skilaði hann til mín drögum og hugmyndum. Starfshópurinn hafði hugmyndir að þessari leið sem hv. þm. lýsti hér.“

16–17 ára.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að aldurstengd örorkuuppbót verði fyrst greidd við 18 ára aldur, þrátt fyrir að í 1. mgr. 12. gr. almannatryggingalaga komi fram að einstaklingar á aldrinum 16–67 ára eigi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum rétt á örorkulífeyri og stangast frumvarpið því á við ákvæði gildandi laga. Á fundi heilbrigðis- og trygginganefndar kom fram að 16–17 ára öryrkjar eru allstór hópur eða 100 piltar og 70 stúlkur. Þrátt fyrir að lögræðislögum hafi verið breytt fyrir nokkrum árum hefur fyrirkomulaginu fyrir þennan hóp ekki verið breytt í almannatryggingakerfinu. Á fundi nefndarinnar kom jafnframt fram að framkvæmdin hjá Tryggingastofnun er þannig að 16–17 ára barn sem metið hefur verið öryrki getur ásamt foreldrum sínum valið hvort það fær örorkubætur eða hvort greiddar eru umönnunarbætur til foreldra þess með því. Ekki verður séð af frumvarpinu að foreldrar og börn geti valið þessa leið. Það er alvarlegt að þau séu svipt þessum möguleika.

Skattar.
    Þegar heildarútgjöld vegna samkomulagsins eru skoðuð kemur í ljós að kostnaður ríkissjóðs vegna frumvarpsins nemur 1.050 millj. kr. en samkvæmt upphaflegu samkomulagi hefði hann numið 1.528 millj. kr. Ef málið er skoðað nánar sést hins vegar að raunútgjöldin næmu aðeins 645 millj. kr. Þar sem tekjuskattur er 38,54% yrðu samanlagðar tekjuskattsgreiðslur lífeyrisþeganna 405 millj. kr.
    Ef staðið hefði verið við upphaflegt samkomulag og tekjuskattgreiðslur dregnar frá hefðu raunútgjöld ríkissjóðs því orðið 939.109 kr. þar sem tekjuskatturinn hefði verið 588.891 kr.
    Því verður ekki annað séð en svigrúm ætti að vera til að standa að fullu við upphaflegt samkomulag við Öryrkjabandalag Íslands, en fulltrúar ríkisstjórnarinnar á Alþingi felldu tillögur þess efnis við afgreiðslu fjárlagafrumvarps fyrir árið 2004.
    Minni hlutinn mælir með samþykkt frumvarpsins með breytingu sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 9. des. 2003.



Guðrún Ögmundsdóttir,


frsm.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Önundur S. Björnsson



Þuríður Backman.




Fylgiskjal I.

Hlutfallsleg skerðing aldurstengdrar örorkuuppbótar miðað við
samkomulag heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Öryrkjabandalagsins.


Aldur Uppbót Aldur Uppbót
18 100,00% 43 49,00%
19 97,96% 44 46,96%
20 95,92% 45 44,92%
21 93,88% 46 42,88%
22 91,84% 47 40,84%
23 89,80% 48 38,80%
24 87,76% 49 36,76%
25 85,72% 50 34,72%
26 83,68% 51 32,68%
27 81,64% 52 30,64%
28 79,60% 53 28,60%
29 77,56% 54 26,56%
30 75,52% 55 24,52%
31 73,48% 56 22,48%
32 71,44% 57 20,44%
33 69,40% 58 18,40%
34 67,36% 59 16,36%
35 65,32% 60 14,32%
36 63,28% 61 12,28%
37 61,24% 62 10,24%
38 59,20% 63 8,20%
39 57,16% 64 6,16%
40 55,12% 65 4,12%
41 53,08% 66 2,08%
42 51,04% 67 0,04%

Fylgiskjal II.


Hlutfallsleg skerðing aldurstengdrar örorkuuppbótar miðað við
frumvarp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.


Aldur Grunnlífeyrir
og aldurstengd örorkuuppbót
Hlutfall uppbótar
af grunnlífeyri
18–19 41.260 kr. 100,0%
20–21 40.229 kr. 95,0%
22–23 39.197 kr. 90,0%
24–25 38.166 kr. 85,0%
26–27 37.134 kr. 80,0%
28–29 35.071 kr. 70,0%
30–31 33.008 kr. 60,0%
32–33 30.945 kr. 50,0%
34–35 28.882 kr. 40,0%
36–37 26.819 kr. 30,0%
38–39 24.756 kr. 20,0%
40–43 22.693 kr. 10,0%
44–48 21.662 kr. 5,0%
49–59 21.146 kr. 2,5%
60–66 20.939 kr. 1,5%



Fylgiskjal III.


Allt að tvöföldun grunnlífeyris hjá yngsta hópnum.
(Morgunblaðið 26. mars 2003.)


    Ríkisstjórnin og Öryrkjabandalag Íslands hafa gert með sér samkomulag um hækkun á grunnlífeyri öryrkja og breytingar á kerfi örorkulífeyris. Breytingarnar taka gildi frá og með næstu áramótum en með henni er sérstaklega komið til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni. Gert er ráð fyrir allt að tvöfaldri hækkun grunnlífeyris til þeirra sem yngstir verða öryrkjar. Hann er rúmar 20 þúsund krónur í dag en verður rúmt 41 þúsund krónur eftir hækkun.
    Ríkisstjórnin samþykkti samkomulagið á fundi sínum í gærmorgun en skipa á starfshóp til að gera endanlegar tillögur að breytingum á lögum um almannatryggingar í samræmi við samkomulagið.
    Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sagði að ráðuneytið og Öryrkjabandalagið hefðu átt í viðræðum í meira en ár um hvaða leiðir væru færar til að bæta hag öryrkja. Megintíðindin í samkomulaginu væru breytingar á kerfi örorkulífeyris en samkvæmt því yrði unnið að því að taka upp aldurstengdar örorkubætur.

Starfshópur móti tillögurnar nánar.
    „Þetta eru róttækar tillögur og mikil breyting frá því sem verið hefur. Það á að skipa starfshóp til að útfæra þessar hugmyndir nánar og þá með það í huga að hópurinn skili af sér tillögum næsta haust. Þær verða þá lagðar fyrir Alþingi,“ sagði ráðherra. Jón sagði að í ljósi samkomulags sem ríkisstjórnin gerði við aldraða á síðasta ári hefði verið einboðið að nálgast Öryrkjabandalagið á einhvern svipaðan hátt og efla samráð. Reyndar hafi þá þegar staðið yfir viðræður milli þessara aðila. Ráðherra sagði vel við hæfi á Evrópuári fatlaðra að móta stefnu um þessa kerfisbreytingu sem var fyrst samþykkt á aðalfundi Öryrkjabandalagsins árið 1998.
    Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands, sagði að í samkomulaginu fælist uppstokkun á núverandi kerfi, tekist hefði að finna nýja leið innan þess til að koma til móts við þarfir öryrkja og þá sérstaklega þá sem yrðu öryrkjar ungir.
    „Þetta á sér langan aðdraganda þar sem margt hefur verið til skoðunar. Á síðustu mánuðum höfum við hallast æ meira að því að þetta væri besta, skilvirkasta, hagkvæmasta og einfaldasta lausnin sem til greina kæmi,“ sagði Garðar. Hann sagði að sú stefna sem mörkuð hefði verið á aðalfundi ÖBÍ árið 1998 um kerfisbreytingu örorkulífeyris, og komið væri til móts við með þessu samkomulagi, hefði verið meginbaráttumál bandalagsins undanfarin ár.
    Hann minnti á að eitt og sama almannatryggingakerfið hefði gilt bæði fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega og aldrei hefði verið mögulegt að gera á því breytingar nema sama gengi yfir alla, samtals tæplega 40 þúsund lífeyrisþega í landinu. „Nú er í fyrsta sinn höggvið á þennan hnút og brotist út úr þeirri herkví og fyrir það eiga tryggingaráðherra og stjórnvöld mikinn heiður skilið sem hafa unnið sleitulaust að þessu með okkur undanfarna mánuði,“ sagði Garðar.
    Hann sagði að almannatryggingakerfið hefði legið undir ámæli fyrir að vera eins konar „ölmusukerfi“, m.a. af hálfu ÖBÍ. Með samkomulaginu væri gengið til gagnstæðrar áttar, þ.e. að gera lífeyristryggingar að „alvöru tryggingum“.

Kostar um milljarð á ári.
    Samkvæmt samkomulaginu hækkar grunnlífeyrir allra öryrkja en mismikið eftir því hvenær viðkomandi varð fyrir sinni örorku.
    Ráðherra sagði að sér hugnaðist vel sú hugmyndafræði sem lægi að baki. Þeir sem yrðu öryrkjar á unga aldri hefðu minni tækifæri í lífinu en hinir sem yrðu fyrir skertri starfgetu seinna, og ættu því að fá meira.
    „Menn kannski spyrja hvort þetta sé eitthvert kosningaplagg. Og það er það ekki, þetta er unnið í einlægni á löngum tíma og þessi stefnubreyting liggur fyrir og hún byggist á vilja Öryrkjabandalagsins,“ sagði ráðherra. Garðar Sverrisson tók undir þá fullyrðingu.
    Samkvæmt útreikningum sérfræðinga heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins er kostnaður við kerfisbreytinguna og hækkun grunnlífeyris áætlaður rúmur einn milljarður króna á ársgrundvelli.
    Gert er ráð fyrir tvöföldun grunnlífeyris hjá þeim sem yngstir verða öryrkjar en hækkunin er minni hjá þeim sem verða öryrkjar síðar á lífsleiðinni. Samkvæmt samkomulaginu nemur hækkunin/lækkunin rúmum 400 krónum fyrir hvert ár á aldursskeiðinu 18–67 ára, eftir því hvenær viðkomandi er metinn til örorku. Sá sem verður öryrki 18 ára eða yngri fær í dag 20.630 kr. í grunnlífeyri en fengi samkvæmt samkomulaginu 41.260 kr.
    Sá sem verður verður fyrir örorku 56–7 ára gamall fengi rúmlega 4 þúsund króna hækkun, 46–7 ára fengi rúmlega 8 þúsund og sá sem er 36–7 tæpar þrettán þúsund. Sá sem metinn er til örorku 26–7 ára fengi tæpar 17 þúsund og hjá yngsta hópnum er hækkunin sem fyrr segir tæpar 21 þúsund kr.
    Garðar segir að hér sé um að ræða reikniverk sem liggi til grundvallar þeirri brúttótölu sem áætlað sé að breytingarnar kosti. Miðað er við að þeir sem verði öryrkjar 67 ára fái grunnlífeyri sem nemi sömu upphæð og ellilífeyrir.

Hæstu tekjur hækka úr 95 í 115 þúsund krónur.
    Að sögn Garðars munu samanlagðar tekjur þeirra sem mest fá úr almannatryggingakerfinu eftir breytingar, þ.e. þeirrra sem yngstir eru og hafa óhagræði af að búa einir, hækka úr 95 þúsund krónum í 115 þúsund kr.



Fylgiskjal IV.


Uppfylla samkomulag við öryrkja í áföngum.
(Morgunblaðið 27. nóvember 2003.)


    Uppfylla á í tveimur áföngum samkomulag um hækkun á grunnlífeyri öryrkja og breytingar á kerfi örorkulífeyris, sem ríkisstjórnin gerði við öryrkja í febrúar, í stað þess að gera allar breytingarnar sem samkomulagið gerir ráð fyrir 1. janúar 2004. Formaður Öryrkjabandalagsins segir ríkisstjórnina ekki hafa reynst traustsins verða.
    Í ræðu Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra á Alþingi kom fram að einungis verður staðið við tvo þriðju samkomulagsins 1. janúar 2004, og muni afgangurinn koma til framkvæmda ári síðar.
    Jón Kristjánsson segir í samtali við Morgunblaðið að áætlað hafi verið að verja í þetta einum milljarði króna, og gert ráð fyrir því í fjárlögum. Þegar nefnd sem starfaði að málinu mat kostnaðinn hafi komið í ljós að það vantaði 500 milljónir uppá. „Það þýðir það að 1. janúar [2004] getum við ekki farið í nema tvo þriðju. Síðan er meiningin, og ég vona að það takist um það samkomulag, að 2005 komi afgangurinn til framkvæmda,“ segir Jón. Hann segir að heimildir á fjárlögum séu eingöngu fyrir einum milljarði sem samkomulagið gerði ráð fyrir. „Það var í samræmi við þá kostnaðaráætlun sem lá fyrir þegar það var gert.“

Hærri kostnaður lá fyrir.
    Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands, segir að legið hafi ljóst fyrir þegar samkomulagið var gert að kostnaðurinn yrði hærri en einn milljarður, líklega nærri 1,2 til 1,4 milljörðum. „Það var vitað áður en fjárlagafrumvarpið var lagt fram og ætti ekki að koma á óvart. Við treystum þessu samkomulagi, en ríkisstjórnin reyndist ekki traustsins verð,“ segir Garðar.
    Hann segir þessa hækkun hafa átt að vera fyrsta skrefið í réttarbótum til öryrkja, og segir það einkennileg vinnubrögð að taka fyrsta skref að fyrsta skrefi. Hann segir að af fenginni reynslu taki hann allri umræðu um áfanga og skref með miklum fyrirvara og segist þar vísa til fyrri loforða Framsóknarflokksins um afnám skerðingar vegna tekna maka í áföngum.
    Í samkomulaginu stendur að samkvæmt útreikningum sérfræðinga í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu verði kostnaðurinn við þessa hækkun grunnlífeyris og kerfisbreytinga „rúmur einn milljarður króna á ársgrundvelli“. Garðar segir því einkennilegt að gera bara ráð fyrir sléttum milljarði í fjárlögum, þótt það sé í sjálfu sér ekki kjarni málsins.
    Helgi Hjörvar gagnrýndi þessa áfangaskiptingu í umræðum á þingi, og sagði ljóst að efndum yrði frestað vegna þess að heilbrigðisráðherra hefði ekki nægar heimildir í fjárlögum. Hann segir ekkert hafa komið fram um skort á heimildum í kosningabaráttunni og segir heilbrigðisráðherra hafa lofað efndum á samkomulaginu hinn 1. janúar.



Fylgiskjal V.


Breytingin verður lögfest.
(Morgunblaðið 28. nóvember 2003.)


    Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, segist vera staðráðinn í að fullnusta samkomulagið um breytingar á kerfi örorkulífeyris og hækkun á grunnlífeyri ungra öryrkja frá í mars sl. Komið hefur í ljós að kostnaður vegna breytinganna er meiri en áætlað var í mars og koma hækkanir til framkvæmda í áföngum, að tveimur þriðju hlutum um næstu áramót og afgangurinn ári síðar.
    – Í samkomulaginu um breytingarnar sem kynnt var 25. mars sl. segir að hækkunin komi til framkvæmda 1. janúar 2004. Nú er ljóst að það verður ekki að öllu leyti. Hver er ástæða þess?
    „Samkomulagið var handsalað af okkur Garðari Sverrissyni [formanni Öryrkjabandalags Íslands] í mars. Það var kynnt sem tímamótasamkomulag, sem felst í því að kerfinu er breytt og teknar upp aldurstengdar örorkubætur, sem var baráttumál Öryrkjabandalagsins um árabil. Sú breyting gengur í gegn og það er verið að vinna að gerð frumvarps um breytingar á lögum þannig að þessi breyting geti tekið gildi. Þetta er að mínu mati stærsta skrefið í réttindamálum öryrkja sem hefur verið stigið um árabil,“ segir Jón.

Einn milljarður greiddur út til öryrkja um áramót.
    „Þegar ég lagði þetta fyrir ríkisstjórnina, eins og kemur fram í fréttatilkynningu sem við sendum út eftir handsal okkar, þá lágu fyrir upplýsingar um að kostnaðurinn yrði rúmlega milljarður króna. Það fékk ég samþykkt í ríkisstjórn og það voru þær upplýsingar sem lágu fyrir þegar þetta var gert. Sá milljarður mun verða greiddur út til öryrkja um áramótin í samræmi við nýja löggjöf þar um,“ segir Jón.
    Hann segir að nokkrum mánuðum eftir að samkomulagið var gert hafi komið fram nýjar upplýsingar um að breytingin verði dýrari en gert var ráð fyrir þegar samkomulagið var kynnt. „Það breytir því ekki að ég vil uppfylla þetta samkomulag og greiða þá það sem upp á vantar til að nær tvöfalda grunnlífeyrinn eftir tólf mánuði. Það er mín ætlan,“ segir ráðherra.
    Jón leggur áherslu á að breytingin sem mun taka gildi um næstu áramót sé réttindabreyting sem öryrkjar hafa sóst eftir um langt árabil. „Þetta samkomulag var metið mjög mikils. Við erum að verja í þetta einum milljarði króna og ég tel að með því séum við að uppfylla meginþátt þessa samkomulags og það hefur aldrei staðið til annað af minni hálfu en að uppfylla það að fullu,“ segir hann.
    Að sögn Jóns var samkomulagið í mars sl. ekki skriflegt heldur byggðist það á handsali hans og formanns Öryrkjabandalagsins. Jón segir það hins vegar ekki skipta máli í þessu sambandi þó samkomulagið hafi ekki verið undirritaður skriflegur samningur. „Við tókumst í hendur um þetta, ég og Garðar, og kynntum þetta sem samkomulag okkar á milli, sem ég lagði fyrir ríkisstjórn, á þeim forsendum sem þá lágu fyrir. Þá lá fyrir kostnaðarmat upp á einn milljarð eins og tekið var fram í fréttatilkynningunni.“

Stóð í þeirri trú að kostnaðurinn yrði einn milljarður.
    – Var sú kostnaðaráætlun forsenda samkomulagsins?
    „Þetta var sú kostnaðaráætlun sem lá fyrir á þessum tíma. Ég lagði fyrir ríkisstjórnina að breytingin myndi kosta þetta og ég stóð í þeirri trú að kostnaðurinn yrði þessi. En forsendan fyrir samkomulaginu og veigamesti þáttur samkomulagsins er breytingin sem gerð verður. Það var tekin ákvörðun um að breyta lögum í samræmi við baráttumál sem Öryrkjabandalagið hafði sett á oddinn lengi og ályktaði um á aðalfundi sínum 1988 ef ég man rétt. Hugmyndafræðin var sú að hækka verulega bætur til ungra öryrkja á þeim forsendum að þeir hafa ekki sömu tækifæri í lífinu og þeir sem verða öryrkjar síðar á lífsleiðinni.
    Þær upplýsingar sem ég hafði um kostnað vegna þessa á þessum tíma var að þetta myndi kosta milljarð og lagði ég það fyrir ríkisstjórnina. Nokkrum mánuðum seinna kemur svo í ljós að þetta sé þriðjungi dýrara en ég var búinn að fá samþykkt.“

Heildarkostnaður nú áætlaður um 1.500 milljónir kr. á ári.
    Heilbrigðisráðherra skipaði starfshóp til að útfæra breytingarnar og gera endanlegar tillögur að breytingum á lögum. Fór hópurinn m.a. yfir kostnað við breytingarnar og fékk ráðherra nýtt kostnaðarmat í hendur þar sem í ljós kom að heildarkostnaðurinn er talinn um 1.500 milljónir kr.
    Niðurstaðan var því sú að sögn ráðherra að greiða þyrfti hækkanirnar sem um var samið í áföngum, 66% koma til greiðslu um næstu áramót og afgangurinn ári síðar.
    Hann var spurður hvort ekki hefði komið til álita að bæta því sem upp á vantar inn í fjárlagafrumvarp næsta árs þar sem það er enn til umfjöllunar á Alþingi. „Það var ekki niðurstaðan í meðförum fjárlagafrumvarpsins að auka við minn [útgjalda-]ramma, þannig að þetta varð niðurstaðan í meðförum ríkisstjórnarinnar um fjárlagafrumvarpið,“ segir Jón.

Hef einsett mér að uppfylla samkomulagið.
    – Hverju svarar þú þeirri gagnrýni sem fram hefur komið, að með því að áfangaskipta þessu sé verið að svíkja samkomulagið?
    „Ég vísa því á bug að um einhver svik sé að ræða af minni hálfu í þessu efni,“ segir Jón. „Ég stend að fullu við það sem ég vissi réttast þá [þegar samkomulagið var gert]. Síðan hef ég einsett mér að uppfylla samkomulagið. Við munum breyta lögum í samræmi við það sem samkomulagið kveður á um, við munum borga strax um áramótin það sem samkomulagið hljóðaði upp á þegar það var gert og greiða síðan viðbótina. Kerfisbreytingin verður lögfest og hún er komin til að vera,“ segir Jón.
    Lagafrumvarpið sem kveður á um þessar breytingar verður væntanlega lagt fyrir ríkisstjórn og alþingi á næstu dögum.
    Forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins hafa brugðist hart við fregnum um að samkomulagið komi ekki að fullu til framkvæmda um næstu áramót. Aðspurður segist Jón vona að samskipti ríkisvaldsins og Öryrkjabandalagsins verði áfram góð þrátt fyrir þessi viðbrögð núna og menn horfi á aðalatriði málsins og þær miklu réttarbætur sem í því felast. „Það hafa fallið nokkuð stór orð í fjölmiðlum, en það truflar mig ekki í því að ég ætla mér að fullnusta þetta samkomulag,“ segir Jón Kristjánsson.



Fylgiskjal VI.


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið:

    Fréttatilkynning nr. 17/2003.
    (25. mars 2003.)

    Samkomulag um að bæta hag ungra öryrkja sérstaklega.
    Allt að tvöföldun grunnlífeyris.

    Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, og Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands hafa, fyrir hönd ríkisstjórnar og Öryrkjabandalagsins, gert samkomulag um hækkun grunnlífeyris öryrkja frá 1. janúar 2004. Er með samkomulaginu komið sérstaklega til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni, en gert er ráð fyrir allt að tvöfaldri hækkun grunnlífeyris til þeirra sem yngstir verða öryrkjar.
    Ríkisstjórnin samþykkti samkomulagið á fundi sínum í morgun. Það er gert í framhaldi af formlegum og óformlegum viðræðum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og forsvarsmanna Öryrkjabandalags Íslands sem staðið hafa frá í febrúar 2002, eða í rúmt ár, og hefur Öryrkjabandalagið lagt sérstaka áherslu á það í viðræðunum að sérstaða þeirra sem yngstir verða öryrkjar verði bætt. Samkomulagið er einnig gert í tilefni Evrópuárs fatlaðra.
    Samkvæmt samkomulaginu er lagt til að skipaður verði starfshópur sem geri endanlegar tillögur að breytingum á lögum um almannatryggingar í samræmi við samkomulagið sem taka gildi 1. janúar 2004, eins og áður sagði, og tillögur sem eiga að auka möguleika öryrkja til atvinnuþátttöku.
    Starfshópurinn skal miða störf sín við framangreint samkomulag sem felur í sér eftirfarandi:
          Stigið verði fyrsta skref til viðurkenningar á hinni margvíslegu sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni.
          Þeir sem yngstir verða öryrkjar til lífstíðar fá þannig hækkun á núverandi grunnlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins, sem nemur allt að tvöföldun grunnlífeyrisins.
          Þeir sem verða öryrkjar síðar á lífsleiðinni fá hins vegar hækkun á núverandi grunnlífeyri með hliðsjón af aldri, þannig að þeir sem verða öryrkjar 67 ára fá grunnlífeyri sem nemur sömu upphæð og ellilífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins.
          Hækkunin kemur til framkvæmda 1. janúar 2004.
    Í samkomulaginu er sömuleiðis gert ráð fyrir að starfsendurhæfing öryrkja verði efld og taki mið af þeim margvíslegu möguleikum sem nú hafa skapast með breyttum atvinnuháttum. Er þetta gert til að ýta undir og opna möguleika öryrkja til að taka þátt í atvinnulífinu á sínum forsendum.
    Samkvæmt útreikningum sérfræðinga heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins verður kostnaðurinn við þessa hækkun grunnlífeyris og kerfisbreytinguna rúmur einn milljarður króna á ársgrundvelli.



Fylgiskjal VII.


Örorkulífeyrir.
(Ríkisútvarpið 25. mars 2003.)


    Grunnlífeyrir þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni tvöfaldast samkvæmt samkomulagi milli Öryrkjabandalagsins og heilbrigðis- og tryggingaráðherra sem kynnt var í dag. Grunnlífeyrir verður aldurstengdur og skilið verður á milli örorkulífeyris og ellilífeyris. Formaður Öryrkjabandalagsins fagnar samkomulaginu og segir það eitt merkasta framfaraspor í réttindabaráttu öryrkja.
    Viðræður hafa staðið yfir í nokkuð langan tíma milli Öryrkjabandalagsins og heilbrigðisráðherra og hefur tónninn ekki alltaf verið jákvæður. Nú hafa sverðin verið slíðruð með samkomulagi um nokkuð róttækar breytingar á fyrirkomulagi grunnlífeyrisgreiðslna. Samkomulagið var kynnt í dag og samþykkt í ríkisstjórn í morgun. Gert er ráð fyrir að skipaður verði starfshópur til að móta tillögurnar, frumvarp lagt fram á haustþingi og að samkomulagið taki gildi um næstu áramót. Meginbreytingin er að grunnlífeyrir öryrkja verður aldurstengdur og að klippt verður á samband milli örorkulífeyris og ellilífeyris sem hafa fylgst að fram til þessa. Grunnlífeyrir þeirra sem verða öryrkjar 67 ára verður sá sami og hjá ellilífeyrisþegum. Hann hækkar hins vegar um rúmar 400 krónur á ári og verður hærri því yngri sem viðkomandi missir starfsorkuna. Hann tvöfaldast hjá þeim sem hljóta örorku 18 ára og yngri sem þeir halda svo alla lífsleiðina. Hann hækkar úr rúmum 20 þúsund krónum í rúmar 40 þúsund krónur, sem þýðir að örorkubætur með tekjutryggingu og heimilisuppbót verða um 115 þúsund krónur á mánuði. Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands fagnar samkomulaginu og segir að langþráð markmið í baráttu öryrkja sé náð.
    [Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands:] „Ja, ég held að þegar að fram líða stundir a.m.k. þá og menn líta til baka þá verði litið á þennan dag sem mesta framfaraspor í okkar réttindabaráttu.“
    Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra segist vera sáttur við samkomulagið: „Þetta er hugmyndafræði sem að mér hugnast vel, því að þeir sem verða öryrkjar á unga aldri missa af mörgum tækifærum í lífinu sem aðrir hafa notið.“
    Áætlað er að hækkun grunnlífeyris öryrkja muni kosta ríkissjóð rúman 1 milljarð króna á ári og hvorki formaður Öryrkjabandalagsins né heilbrigðisráðherra óttast að sú ríkisstjórn sem tekur við að loknum kosningum gangi gegn samkomulaginu.
    [Jón Kristjánsson:] „Ég hef tröllatrú á því að hver sem að ríkisstjórnin verður sem að tekur við að loknum kosningum að þeir standi við þetta samkomulag. Ég hef enga trú á því að hver sem ríkisstjórnin verður að þeir vilji hefja styrjöld við Öryrkjabandalagið.“



Fylgiskjal VIII.


Bætt kjör
(Stöð 2 25. mars 2003)


    Grunnlífeyrir yngstu öryrkja allt að tvöfaldast samkvæmt samkomulagi sem heilbrigðisráðherra og formaður Öryrkjabandalags Íslands kynntu í dag. Breytingar á greiðslum munu kosta ríkissjóð rúman milljarð á ári frá næstu áramótum.
    Grunnlífeyrir til þeirra sem verða fyrir örorku 18 ára og yngri hækkar um 20 þúsund krónur eða tvöfaldast frá því sem nú er. Hækkunin verður minni í réttu hlutfalli við aldur öryrkja sem nemur rúmum 400 krónum fyrir hvert aldursár uns grunnlífeyri ellilífeyris er náð við 67 ára aldur. Með samkomulaginu í dag er verið að lofa töluverðum fjárútgjöldum fyrir hönd næstu ríkisstjórnar. Þetta verður rúmur milljarður á ári eða svo sem fer til öryrkja með breyttu bótakerfi. Milljarðurinn kemur til viðbótar þeim greiðslum sem þegar renna til þessa hóps. Skipaður verður starfshópur sem skal vinna að því að útfæra samþykktina sem skal ganga í gildi í ársbyrjun 2004. Starfsendurhæfing öryrkja skal einnig efld með tilliti til breyttra atvinnuhátta og ýtt undir möguleika þeirra til þátttöku í atvinnulífinu á eigin forsendum. Heilbrigðisráðherra segir ekki um kosningabombu að ræða.
    [Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra:] „Það vill nú svo til að allir flokkar hafa gefið miklar yfirlýsingar um þetta þannig að, um öryrkjabætur. En ég hef í góðri samvinnu við Öryrkjabandalagið komist að þessari niðurstöðu og það finnst mér ákaflega verðmætt svo ekki sé meira sagt.“
    Formaður Öryrkjabandalagsins segir helsta baráttumál bandalagsins síðustu 5 ár vera að fá farsælan endi.
    [Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands:] „Þetta er ekki aðeins stór dagur í okkar réttindabaráttu, þetta markar einnig tímamót í sögu og rauninni þróun almannatryggingakerfisins sem hefur legið undir ámæli, meðal annars frá okkur fyrir það að vera fyrst og fremst ölmusukerfi. En með þessu samkomulagi sem staðfest var á ríkisstjórnarfundi núna í morgun að þá er gengið alveg til gagnstæðrar áttar og í átt til þess að gera almannatryggingakerfið okkar að meira tryggingakerfi og viðurkenna í verki þá sérstöðu sem að öryrkjar búa við.“



Fylgiskjal IX.


Arnþór Helgason:

Sótt og sigrað.
(Tímarit Öryrkjabandalags Íslands, 2. tbl. 2003.)


    Þjóðfélaginu er stundum líkt við flókna skák. Í raun má halda því fram að teflt sé á mörgum borðum. Nokkrir tefla fjöltefli og sækja að þeim ýmsir andstæðingar. Tekist er á um ólík álitamál og verða ýmsir ofan á.
    Öryrkjabandalag Íslands hefur allt frá stofnun þess árið 1961 beitt sér fyrir bættum hag fatlaðra hér á landi. Þrátt fyrir að hægt hafi miðað hefur þó mörgu þokað áleiðis. Á síðasta áratug 20. aldar virtist verða einhver viðhorfsbreyting hjá stjórnvöldum gagnvart íslenska velferðarkerfinu. Stjórnvöld töldu þá nauðsynlegt að skera niður ríkisútgjöld vegna nokkurrar efnahagskreppu og var ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur enda varð það einna fyrirhafnarminnst.
    Árið 1993 var lögum um almannatryggingar breytt vegna aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Þar var ekki að finna ákvæði um skerðingu tekjutryggingar vegna tekna maka. Stjórnvöld settu slík ákvæði eigi að síður í reglugerð. Garðar Sverrisson, er síðar varð formaður Öryrkjabandalags Íslands, kom fljótlega auga á þennan annmarka og vakti athygli ýmissa aðila á honum. Leiddi það til þess að lögum um almannatryggingar var enn breytt skömmu fyrir jólin 1998 og var nú skotið inn setningu um heimild til þess að skerða tekjutryggingu vegna tekna maka. Vegna stirðra samskipta við stjórnvöld var því ekki annað fyrir hendi en að höfða mál til þess að fá þessum ákvæðum hnekkt.
    Hinn 19. desember árið 2000 kvað Hæstiréttur upp tímamótadóm þar sem skerðingin var ekki talin standast mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar. Ríkisstjórnin brást við með því að setja lög um takmarkaða skerðingu tekjutryggingarinnar og hefur ætíð verið litið á þetta ákvæði sem eins konar hefndarráðstöfun í garð Öryrkjabandalags Íslands. Hefði dómnum verið hlýtt næmi viðbótarkostnaður ríkissjóðs vegna óskertrar tekjutryggingar vart nema tæpum 70 milljónum á ári.
    Öryrkjabandalag Íslands ákvað að una hvorki afturvirkni laganna né fyrningarákvæðunum og höfðaði því nýtt mál. Hæstiréttur kvað upp dóm þann 16. okt. síðastliðinn þar sem afturvirkni laganna var dæmd ógild og Tryggingastofnun því dæmd til þess að greiða lífeyrisþegum, sem höfðu orðið fyrir skerðingum vegna tekna maka, það sem upp á vantaði fulla tekjutryggingu fyrir árin 1999 og 2000. Er því full ástæða til að halda því fram að Öryrkjabandalagið hafi unnið nokkurn sigur í málinu þar sem afturvirkni laganna var dæmd ógild. Hins vegar tók dómurinn ekki á því álitamáli hvort núgildandi ákvæði laga nr. 3/2001 um skerðingu tekjutryggingar stæðust stjórnarskrá enda var ekki um það spurt.
    Það hefur vakið athygli víða um heim að Öryrkjabandalag Íslands skyldi þurfa að stefna íslenskum stjórnvöldum vegna stjórnarskrárbrots. Fáheyrt er í löndum sem við viljum helst miða okkur við að samskipti hagsmunasamtaka og stjórnvalda séu með þessum hætti. Einnig er raunalegt að fylgjast með viðbrögðum ráðherra og þingmanna stjórnarmeirihlutans á alþingi sem fást ekki til að viðurkenna ósigur sinn heldur hafa í frammi digurmæli sem ætlað er að slá ryki í augu almennings og slæva jafnframt skömm þeirra og slæma samvisku. Jafnvel er rætt um að úrslit dómsins snerti fyrst og fremst þá sem hafa það best á meðal öryrkja.
    Ekki verður í þetta sinn fullyrt um framhald þessa máls. Stjórnarandstaðan hefur lýst þeirri skoðun sinni að afnema beri ákvæði laga um skerta tekjutryggingu vegna tekna maka, en eðlilegt verður að telja að tekjutryggingin sé talin hluti grunnlífeyris sem öryrkjum ber. Þennan hluta er þó eðlilegt að skerða að einhverju marki vegna eigin aflatekna. Um það hefur aldrei verið ágreiningur af hálfu Öryrkjabandalags Íslands.

Pólitískt raunsæi Jóns Kristjánssonar.
    Þann 25. mars síðastliðinn náðist merkur áfangi í samskiptum Öryrkjabandalags Íslands og stjórnvalda þegar þeir Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands og Jón Kristjánsson, tryggingaráðherra staðfestu samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og bandalags þess eðlis að grunnlífeyrir öryrkja skyldi sæta sérstökum reglum. Mun grunnlífeyrir öryrkja sem metnir eru til örorku 18 ára eða yngri hækka um helming. Þessi hluti lífeyrisins skerðist svo um rúmar 400 kr. Fyrir hvert ár sem líður. Sé maður metinn til örorku þegar hann er 67 ára hefur viðbótin fallið brott enda má gera ráð fyrir að sá hinn sami hafi aflað sér réttinda til greiðslu úr lífeyrissjóði. Þar með viðurkenna stjórnvöld í rétti að bæta beri öryrkjum ævikjör þeirra. Þá felst í samkomulaginu að aukin áhersla verður lögð á endurhæfingu öryrkja til starfa enda hafa stofnanir eins og Starfsþjálfun fatlaðra sýnt svo að ekki verður um villst að aukin menntun og hæfing öryrkja bætir lífsgæði þeirra.
    Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands samþykkti eftirfarandi ályktun í ljósi áðurnefnds samkomulags:
             Aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands, haldinn fimmtudaginn 9. október 2003, fagnar því samkomulagi sem náðst hefur við ríkisstjórn Íslands um hið nýja kerfi örorkulífeyris sem tekið verður upp frá og með 1. janúar næstkomandi. Með kerfisbreytingu þessari er hin margvíslega sérstaða öryrkja viðurkennd í verki. Fyrir það pólitíska raunsæi eiga íslensk stjórnvöld þakkir skildar.
             Samkomulagið markar ekki aðeins þáttaskil í sögu og þróun almannatrygginga, heldur einnig í samskiptum stjórnvalda við Öryrkjabandalag Íslands. Með beinu og milliliðalausu samkomulagi við bandalagið sýna ráðamenn þjóðarinnar mikilsverðan skilning á nýjum og breyttum viðhorfum til mannréttindabaráttu fatlaðra.
             Öryrkjabandalag Íslands lítur svo á að þau þáttaskil sem hér hafa orðið, ásamt því góða samstarfi sem hafið er í tilefni Evrópuárs fatlaðra, marki upphafið að betri og bjartari framtíð, samfélaginu öllu til hagsbóta. Nútíminn krefst þess að stjórnvöld og samtök fatlaðra haldi áfram að vinna sameiginlega að því brýna verkefni sem þeim hefur verið treyst til að leysa – því verkefni að rjúfa einangrun fatlaðra, leyfa þeim að njóta raunverulegs frelsis og taka fullan þátt í því lýðræðislega samfélagi sem við Íslendingar viljum búa í.
    Á næstu vikum gefst stjórnvöldum tækifæri til að bæta hag öryrkja að mun. Enn skortir þó á að lífskjör þeirra sem eingöngu lifa á bótum almannatrygginga séu sambærileg við það sem þekkist á öðrum Norðurlöndum. Því ber að vona að ýmsar skerðingar, sem fyrirhugaðar eru samkvæmt fjárlagafrumvarpi því sem nú er til afgreiðslu á Alþingi, komi ekki til framkvæmdar.



Fylgiskjal X.


Yfirlit formanns Öryrkjabandalags Íslands,
Garðars Sverrissonar, frá aðalfundi bandalagsins 9. okt. 2003

(Tímarit Öryrkjabandalags Íslands, 2. tbl. 2003.)


Evrópuár fatlaðra.
    Vegna þess alvarlega ágreinings sem upp kom milli stjórnvalda og Öryrkjabandalags Íslands vegna undirbúnings Evrópuárs fatlaðra fór veruleg vinna í það á fyrri hluta þessa árs að finna farsæla lausn á þeim ágreiningi. Í stuttu máli snerist málið um það að við höfnuðum því algerlega að eiga nokkurt samstarf við stjórnvöld um þetta ár nema þau ábyrgðust einhverjar þær lágmarksaðgerðir sem skila myndu öryrkjum raunhæfum kjarabótum. Ekki væri um það að ræða af okkar hálfu að taka þátt í veislu- og ræðuhöldum, sitjandi fyrir á ljósmyndum með ráðamönnum, ef ekki væri að fullu tryggt að um áþreifanlegar kjarabætur yrði að ræða – kjarabætur sem okkar fólk gæti vegið og metið í krónum og aurum.
    Fyrstu viðbrögðin við þessari afstöðu bandalagsins voru þau að reynt var ítrekað að reka fleyg í samstöðu okkar, reyna að lokka ýmis aðildarfélög til þátttöku í einni eða annarri mynd. En eins og áður, þegar við höfum átt undir högg að sækja, sýndu aðildarfélögin og forystumenn þeirra aðdáunarverða staðfestu og höfnuðu algerlega hvers kyns samstarfi á meðan lágmarkskröfu Öryrkjabandalagsins væri ekki svarað skýrt og skilmerkilega. Af hálfu annarra Evrópulanda var ítrekað leitað eftir upplýsingum frá íslenskum stjórnvöldum um það hvernig þau hyggðust vinna með heildarsamtökum fatlaðra á Evrópuárinu. Við þessari málaleitan var vitaskuld ekki nokkur leið að bregðast án þess að geta þess um leið, sem formaður ÖBÍ hafði raunar gert á vettvangi Evrópusamtaka fatlaðra, að íslensk stjórnvöld hefðu ekki enn treyst sér til að koma til móts við lágmarkskröfu Öryrkjabandalagsins um að bæta lífsgæði öryrkja með raunhæfum aðgerðum.
    Þegar við bættist að á sjálfu Evrópuári fatlaðra voru nú einnig að fara í hönd Alþingiskosningar í landinu mátti ríkisstjórn Íslands ljóst vera hvað til hennar friðar heyrði ef ekkert yrði aðhafst. Það hafði Öryrkjabandalagið sýnt fjórum árum áður, fyrir þingkosningarnar 1999, að þótt öryrkjar hefðu ekki verkfallsrétt gætu þeir beitt áróðursaðferðum sem erfiðara gæti reynst að verjast en nokkru verkfalli – áhrifavaldi sem óhugsandi væri að beita nema því aðeins að okkur hefur, hvað sem öðru líður, tekist að virkja almenningsálitið og fá drjúgan meirihluta þjóðarinnar til fylgis við okkar málstað, eins og staðfest hefur verið í fleiri en einni skoðanakönnun. Fyrir bragðið má segja að hér hafi því verið um eins konar verkfallsástand að ræða, þar sem þrýstingurinn fór sívaxandi og stjórnvöldum orðið ljóst að ef ekkert yrði aðhafst kæmist Öryrkjabandalagið ekki hjá því að blanda sér beint í kosningabaráttuna með fullum og áður óþekktum þunga. Til viðbótar hafði því skýrt verið komið til skila að ef fullnægjandi svör bærust ekki frá stjórnvöldum myndi bandalagið leita samstarfs við verkalýðshreyfinguna um Evrópuár fatlaðra, en fyrirheit um slíkt samstarf lágu þá þegar fyrir af hálfu forystumanna verkalýðshreyfingarinnar.
    Þótt formlega bæri ráðherra félagsmála ábyrgð á Evrópuárinu tók málið óhjákvæmilega að flytjast yfir á herðar tryggingamálaráðherra. Eftir að birst hafði heilsíðuauglýsing með áskorun ÖBÍ til ríkisstjórnar Íslands var formaður bandalagsins kallaður á fund tryggingamálaráðherra þar sem fram kom að ráðherra hefði fullan skilning á því að vilji Öryrkjabandalagsins stæði til þess að Evrópuár fatlaðra yrði annað og meira en ræðuhöld og veisluglaumur. Vandinn væri hins vegar sá að gengið hefði verið frá fjárlögum og því erfitt að koma með úrbætur sem kölluðu á umtalsverð fjárútlát. Formaður tjáði ráðherra að úr því sem komið væri hefði hann skilning á þessum vanda. Á hinn bóginn væri enn hægt að gera gott úr málum. Til að mynda væri enn mögulegt að ná saman um aðgerðir sem tækju gildi eigi síðar en 1. janúar 2004 þar sem kveðið væri á um úrbætur í tryggingamálum öryrkja. Gæfi sitjandi ríkisstjórn út skuldbindandi yfirlýsingu í þá veru myndi Öryrkjabandalagið vera reiðubúið til að líta svo á að þar væri um að ræða réttarbætur í tilefni Evrópuárs fatlaðra, enda lögfest fyrir árslok 2003.
    Þar sem bæði ráðuneytin, félags- og tryggingamála, voru á forræði sama stjórnmálaflokksins þróuðust mál á þann veg að formaður flokksins, Halldór Ásgrímsson, hóf virka þátttöku í úrlausn málsins. Í kjölfarið voru fjölmargir fundir haldnir, bæði með ráðherrum og embættismönnum. Niðurstaða þeirra varð sú að raunhæfasta og besta leiðin væri að gera róttæka breytingu á kerfi almannatrygginga, kerfisbreytingu sem Öryrkjabandalagið hafði kynnt og hvatt til á aðalfundi sínum haustið 1998.
    Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og Öryrkjabandalagsins gerðu tryggingamálaráðherra og formaður bandalagsins samkomulag sem kynnt var opinberlega á fréttamannafundi í Þjóðmenningarhúsinu þann 25. mars s.l. Með samkomulaginu, sem kveður á um allt að tvöfalda hækkun grunnlífeyris frá og með 1. janúar 2004, er komið alveg sérstaklega til móts við þá sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni. En samkomulagið hafði ríkisstjórnin samþykkt endanlega á fundi sínum fyrr um daginn.
    Í samkomulaginu er kveðið á um skipan sérstaks starfshóps sem geri endanlegar tillögur að breytingum á lögum um almannatryggingar samkvæmt því sem um var samið og skuli breytingarnar taka gildi 1. janúar 2004. Segir í samkomulaginu að starfshópurinn skuli miða störf sín við eftirfarandi:
                  1.      Stigið verði fyrsta skref til viðurkenningar á hinni margvíslegu sérstöðu þeirra sem verða öryrkjar snemma á lífsleiðinni.
                  2.      Þeir sem yngstir verða öryrkjar til lífstíðar fá þannig hækkun á núverandi grunnlífeyri frá Tryggingastofnun sem nemur allt að tvöföldun grunnlífeyrisins.
                  3.      Þeir sem verða öryrkjar síðar á lífsleiðinni fá hins vegar hækkun á núverandi grunnlífeyrir með hliðsjón af aldri, þannig að þeir sem verða öryrkjar 67 ára fá grunnlífeyri sem nemur sömu upphæð og ellilífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins.
                  4.      Hækkunin kemur til framkvæmda 1. janúar 2004.
    Í samkomulaginu er sömuleiðis gert ráð fyrir að starfsendurhæfing öryrkja verði efld og taki mið af þeim margvíslegu möguleikum sem nú hafa skapast með breyttum atvinnuháttum. Er þetta gert til að ýta undir og opna möguleika öryrkja til að taka þátt í atvinnulífinu á sínum eigin forsendum. Í starfshópnum sem síðustu vikurnar hefur unnið að gerð frumvarps samkvæmt áður greindu samkomulagi sitja þrír fulltrúar heilbrigðis- og tryggingaráðuneytis, einn fulltrúi fjármálaráðuneytis og formaður Öryrkjabandalags Íslands.
    Með samkomulagi ríkisvaldsins og ÖBÍ eru ekki aðeins mörkuð þáttaskil í sögu og þróun almannatrygginga hér á landi, heldur í mörgum tilfellum farið verulega fram úr þeim væntingum og jafnvel kröfum sem áður höfðu komið fram í okkar eigin röðum. Fram til þessa hefur eitt og sama almannatryggingakerfi gilt fyrir öryrkja og ellilífeyrisþega. Af þeim sökum hafði aldrei verið talið fært að hækka örorkulífeyri án þess að eitt og hið sama gilti fyrir hvern einasta lífeyrisþega í landinu, um 40 þúsund einstaklinga, burtséð frá því hvort og þá hvenær þeir höfðu orðið fyrir örorku. Með þeirri hugmyndafræði ÖBÍ sem liggur að baki samkomulaginu við stjórnvöld er í fyrsta sinn höggvið á þennan hnút og brotist út úr þeirri herkví sem við höfum allt of lengi verið föst í. Í krónum talið er hér um að ræða samkomulag sem kosta mun ríkissjóð 1,5 milljarð á ársgrundvelli sem jafngildir helmingi þeirrar fjárhæðar sem nú er varið til greiðslu örorkulífeyris á ári hverju.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem við höfðum síðast erlendis frá hafa engin heildarsamtök fatlaðra náð fram neinum þeim árangri á Evrópuárinu sem kemst nálægt því að jafnast á við þær réttarbætur sem Öryrkjabandalagið hefur nú náð fram með samkomulagi sínu við stjórnvöld. Þótt samningsvinnan hafi fyrst og fremst mætt á formanni bandalagsins, hefði árangurinn ekki orðið sá sem raun ber vitni nema að baki hefði staðið órofa fylking sem staðráðin var í að standa saman í þessu langa samningaþófi og láta hvergi finna á sér höggstað. Þessi órofa samstaða aðildarfélaga ÖBÍ, sem ítrekað hefur reynt mjög á, er í raun meginskýringin á þeim mikla árangri sem við að lokum náðum.

Framtíð Íslenskrar getspár tryggð.
    Af fjölmörgum öðrum málum, sem flest hver heyra til hefðbundinna viðfangsefna Öryrkjabandalags Íslands, samvinnu við önnur samtök og stofnanir, umsagnir um frumvörp og þingsályktanir, einstaklingsmál og almenna hagsmunabaráttu, bar helst til tíðinda að á þessu ári tókst okkur að tryggja pólitískan stuðning allra þingflokka við framlengingu á starfsleyfi Íslenskrar getspár í þeirri mynd sem verið hefur frá upphafi. Í samvinnu við þá aðila sem eiga og reka Lottóið með okkur, Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands, rituðum við þeim stjórnmálaflokkum sem í framboði voru og fórum fram á að þeir svöruðu því til hver afstaða þeirra væri til framlengingar á starfsleyfi Getspárinnar í þeirri mynd sem verið hefur. Þótt lítilsháttar blæbrigðamunur væri á svörum þeirra voru þau efnislega samhljóða um þann kjarna máls sem mikilsverðastur var og okkur skipti mestu.
    Í svari frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði kemur fram að flokkurinn styðji ofangreind samtök heilshugar og hafi ekki neinar hugmyndir um að gera breytingar á þeirri fjármögnunarleið sem hér um ræðir. Í svari Sjálfstæðisflokksins segir að flokkurinn hafi engin áform um annað en að styðja framlengingu starfsleyfis Íslenskrar getspár á næsta kjörtímabili í þeirri mynd sem verið hefur. Framsóknarflokkurinn svarar einnig á þann veg að hann sé því fylgjandi að Íslensk getspá fái framlengingu starfsleyfis síns í þeirri mynd sem verið hefur. Í sama streng tekur Samfylkingin sem segir að hún muni styðja framlenginguna í óbreyttri mynd. Loks segir í svari Frjálslynda flokksins að flokkurinn telji að stuðningur við framlengingu á starfsleyfi Íslenskrar getspár í núverandi mynd sé nauðsynlegur.

Kjarabaráttan ber árangur.
    Í árskýrslum síðustu ára hefur formaður Öryrkjabandalagsins lagt sig fram um að vekja athygli á þeim bágu kjörum sem öryrkjar búa við og birst hafa okkur í margvíslegri mynd. Þótt hugsunin hér að baki hafi vitaskuld verið að veita greinargóðar upplýsingar og brýna okkur sjálf í baráttunni, hefur þessi málflutningur einnig orðið til þess að sum í okkar röðum hafa síður tekið eftir þeim árangri sem baráttan hefur þrátt fyrir allt skilað – fengið á tilfinninguna að okkur hafi að vísu tekist að vekja fólk til vitundar um lífskjör öryrkja en værum að flestu öðru leyti í sömu sporum og við hefðum verið þegar ákveðið var að grípa til harðskeyttari baráttuaðferða undir lok síðasta áratugar. Af þessum sökum er gagnlegt að staldra við um stund og rifja aðeins upp.
    Snemma árs 1998 lagði kjaramálanefnd okkar til að Öryrkjabandalagið gerði ráðstafanir til að freista þess að hrinda af stað aukinni umræðu um kjör öryrkja, bæði með beinni kynningu og margvíslegum óbeinum aðferðum sem minna færi fyrir, en væru til þess hugsaðar að ýta undir þessa umræðu. Tilgangurinn var auðvitað að hin aukna umræða yrði til þess að vandinn yrði viðurkenndur á vettvangi þeirra sem með völdin færu og sú viðurkenning myndi loks leiða til einhverra þeirra úrbóta sem okkar fólk mætti njóta.
    Þegar litið er yfir þessi fimm ár hefur Öryrkjabandalaginu ekki aðeins tekist að hafa áhrif á þjóðfélagsumræðuna heldur einnig að ná fram meiri viðurkenningu á baráttumálum sínum – viðurkenningu sem hefur skilað sér í raunhæfum aðgerðum sem hönd er á festandi. Í þessu sambandi skulu fáein baráttumál nefnd.
     1.      Fyrir fimm árum gagnrýnum við enn harðlega að vasapeningar þeirra öryrkja sem dveldust á stofnunum næmu ekki nema um helmingi grunnlífeyris. Fyrir Alþingiskosningarnar 1999 sáu stjórnvöld sér ekki lengur fært að hunsa þessa gagnrýni. Niðurstaðan varð sú að hækka þessa fjárhæð algerlega til jafns við fullan grunnlífeyri, og síðan, í kjölfar hins svokallaða öryrkjadóms, að hverfa að fullu frá skerðingu vasapeninga vegna tekna maka.
     2.      Í aðdraganda þessara sömu þingkosninga gagnrýndum við einnig þá fjarstæðukenndu reglu að telja einstæðar mæður hafa fjárhagslegt hagræði af sambúð við barn sitt eða börn og telja þær fyrir bragðið hvorki eiga rétt á heimilisuppbót né sérstakri heimilisuppbót, eins og þá var við lýði. Létum við þau boð út berast, bæði til Tryggingastofnunar og ráðuneytis tryggingamála, að yrði þessu ekki breytt myndi Öryrkjabandalagið bæta þessu máli við það stóra mál sem þá þegar hafði verið höfðað á hendur stjórnvöldum. Eftir að málið var komið í hámæli, einkum með sjónvarpsviðtali við móður sem reiðubúin var að ljá bandalaginu nafn sitt til málsóknar, treysti þáverandi tryggingamálaráðherra sér ekki til annars en að ganga að fullu og öllu að kröfum bandalagsins. Gagnvart þeim einstæðu mæðrum sem ekkert hafa nema bætur almannatrygginga hefur þetta þýtt um 35 þúsund króna kjarabót á mánuði eða um 60% hækkun á þeim bótum sem þær að óbreyttu hefðu fengið.
     3.      Á fyrri hluta þessa tímabils gagnrýndum við það harðlega hvernig tekjutrygging öryrkja væri skert vegna tekna maka, hvernig þær byrjuðu að skerðast við óverulegar tekjur makans uns fljótlega væri ekkert eftir nema grunnlífeyrir sem næmi lægri fjárhæð en þeirri sem hið opinbera liti sjálft á sem algert lágmark til framfærslu ungabarna. Eftir umdeildan dóm Hæstaréttar, dóm sem við teljum raunar að ríkisstjórnin hafi ekki enn fullnægt, er staðan þó orðin sú að hafi öryrki ekkert nema bætur almannatrygginga heldur hann að minnsta kosti 52 þúsund krónum, sem er rúmlega 150% hækkun frá því sem að óbreyttu hefði verið. Áður byrjaði tekjutrygging hans að skerðast þegar mánaðartekjur makans fóru fram úr um 40 þúsund krónum, en nú heldur hann fullri og óskertri tekjutryggingu þar til mánaðartekjur makans fara fram úr um 165 þúsund krónum. Þetta þýðir í reynd að lægst launuðu makarnir ná ekki að hrófla við fullri og óskertri tekjutryggingu öryrkjans og heldur hann því rúmum 60 þúsund krónum óskertum, sem er þrefalt hærri upphæð en hann hefði fengið ef Öryrkjabandalagið hefði ekki kært ríkisvaldið fyrir dómsstólum. Eins og nærri má geta eykur þetta ekki aðeins á sjálfstæði þeirra öryrkja sem þegar eru í sambúð eða hjónabandi, heldur gerbreytir þetta að auki möguleikum þeirra sem hyggja á slíkt eða vilja að minnsta kosti ekki búa við lög sem gera þeim nær ókleift að stofna til sambúðar eða hjónabands ef hugur þeirra kynni að standa til þess einhvern tíma síðar á lífsleiðinni.
     4.      Í löngu og erfiðu samningaferli sem staðið hafði yfir frá því áður en hinn svokallaði öryrkjadómur féll lögðum við megináherslu á að dregið yrði úr skerðingu tekjutryggingar vegna atvinnutekna öryrkjans sjálfs. Eftir að skoðaðar höfðu verið ýmsar og ólíkar leiðir að því marki varð niðurstaðan sú að stjórnvöld féllust á að draga 40% atvinnutekna frá áður en til skerðingar kæmi, sem í reynd þýðir lækkun skerðingarprósentunnar úr 45% í 27%. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hve þarna var stigið mikilvægt skref í þá átt að auka möguleika öryrkja til að bæta sinn hag með atvinnuþátttöku.
     5.      Áður en til framangreindra viðræðna kom hafði verið við lýði bótaflokkur sem kallaður var sérstök heimilisuppbót. Auk þess að vera afar lág fjárhæð var bótaflokkur þessi því marki brenndur að hann skertist strax um krónu á móti krónu, eða um 100%, ef öryrkinn gat einhversstaðar orðið sér úti um lítilsháttar tekjur. Í því viðræðuferli sem hér að framan er frá greint varð að ráði að leggja þennan bótaflokk niður og taka í staðinn upp nýjan bótaflokk, svokallaðan tekjutryggingarauka sem ekki einungis var umtalsvert hærri fjárhæð heldur laut að auki lægri skerðingu, 67% í stað 100%. Vegna ítrekaðra athugasemda okkar hefur skerðingarprósenta tekjutryggingaraukans nú verið lækkuð enn frekar, eða úr 67% í 45%. Ásamt umtalsvert minni skerðingu sjálfrar tekjutryggingarinnar hafa þessar réttarbætur gerbreytt þeim möguleikum sem öryrkjar höfðu áður til tekjuöflunar.
     6.      Fram til ársins 1987 höfðu bifreiðakaupastyrkir verið veittir í formi eftirgjafar á aðflutningsgjöldum. Þetta tiltekna ár var horfið frá þessari aðferð og tekin upp ákveðinn fjöldi styrkja sem nam um 650 styrkjum á ári hverju. Á miðjum síðasta áratug tók þáverandi tryggingamálaráðherra þá afdrifaríku ákvörðun að fækka bifreiðakaupastyrkjum um nær helming og koma jafnframt í veg fyrir að þeir héldu raungildi sínu. Allan þann tíma sem síðan er liðinn hefur Öryrkjabandalagið stöðugt þurft að berjast fyrir því að stjórnvöld bættu fyrir skemmdarverk þetta. Sú barátta hefur skilað okkur talsvert fram á við, þótt enn sé ekki að fullu ljóst hverju allra nýjustu lög og reglur, sem í orði kveðnu eru afar jákvæð, eiga í reynd eftir að skila okkur.
     7.      Allt frá því að núverandi kerfi húsaleigubóta var komið á fót höfðum við margoft komið á framfæri mótmælum okkar við því ráðslagi ríkisvaldsins að skattleggja þessar bætur eins og um hverjar aðrar viðbótartekjur væri að ræða. Nú er loks sú jákvæða breyting komin til framkvæmda að bætur þessar eru ekki lengur skattlagðar og skiptir sú kjarabót miklu máli fyrir þá leigjendur í okkar hópi sem verst eru settir fjárhagslega.
     8.      Róttækasta framfarasporið í réttindabaráttu okkar og það sem í framtíðinni á sennilega eftir að marka varanlegust spor verður vafalítið sú gerbylting á kerfi örorkulífeyris sem hér í upphafi var rakin. Að viðbættu sjálfu inntaki hins breytta fyrirkomulags, þeirri nýju og framsæknu hugsun sem að baki býr, á réttarbót þessi það sammerkt með ýmsum þeim sem hér að framan hafa verið raktar að hafa náðst fram í sátt og samlyndi, þar sem Öryrkjabandalagið og ríkisvaldið hafa gengið til samningaviðræðna á jafnréttisgrundvelli, leyst úr ágreiningsmálum sínum eins og siðaðra manna er háttur í stað þess að munnhöggvast gegnum fjölmiðla. Þótt áróðursvinna síðustu ára skipti hér auðvitað sköpum, megum við ekki gleyma því að hér þarf tvo til. Að öðrum ólöstuðum munar þar mestu að í embætti tryggingamálaráðherra hefur valist einstaklingur sem hefur til að bera pólitískt raunsæi og ósvikinn vilja til að leysa þau ágreiningsmál sem uppi hafa verið með málamiðlunum þar sem hagur öryrkja er ekki fyrir borð borinn.

    Vitaskuld hafa margvíslegar aðrar réttarbætur náðst fram á þessum síðustu árum, bæði fyrir tilstuðlan Öryrkjabandalagsins og aðildarfélaga þess, réttarbætur sem sumar hverjar snerta ef til vill ekki marga einstaklinga en hafa þó í ýmsum tilvikum skipt sköpum fyrir afmarkaða hópa. Þegar við því lítum yfir sviðið og förum m.a. yfir þau mál sem hér að ofan hafa verið tilgreind, má okkur ljóst vera hverju samtakamátturinn hefur skilað og mun halda áfram að skila ef okkur aðeins tekst að varðveita þá samstöðu og samheldni sem Öryrkjabandalagið hefur borið gæfu til að sýna í baráttu síðustu ára. Takist okkur það verður ekki hjá því komist að vígstaðan haldi áfram að styrkjast og upp renni framtíð aukins jafnréttis og raunverulegs frelsis fötluðum til handa – framtíð þar sem stjórnvöld munu halda áfram á þeirri skynsamlegu braut að vinna að úrlausn mála í náinni samvinnu við okkur í stað þess að efna til átaka.



Fylgiskjal XI.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið:

Bréf til Tryggingastofnunar ríkisins.
(9. apríl 2003.)


    Í framhaldi af vinnu Tryggingastofnunar ríkisins við útreikninga breytts bótaréttar öryrkja, sem ráðuneytið bað um þ. 5.2. sl. og sem skilað var til ráðuneytisins þ. 17.3. sl., og í framhaldi af samkomulagi ríkisstjórnarinnar við Öryrkjabandalag Íslands frá 25. mars sl. um sama efni, en þó í breyttri mynd, er hér með komið á framfæri við Tryggingastofnun þeirri beiðni að reikna út hvað þetta breytta fyrirkomulag á bótarétti grunntryggingar öryrkja myndi kosta á árinu 2003, ef gert væri ráð fyrir því að það gilti frá 1.1.2003.
    Sú breytta mynd á grunnlífeyri öryrkja, sem samkomulagið gerir ráð fyrir, er tvöföldun lífeyrisupphæðar, þ.e. 2 x 20.630 kr., fyrir þá sem greinast með örorku 18 ára, sem lækkar um 421 kr. fyrir hvert aldursár öryrkjans m.v. hvenær hann er greindur með örorku. Meðfylgjandi tafla skýrir þetta betur.
    Fjárlagagerðarmenn myndu fagna, ef hægt væri að hraða þessum útreikningum.

F. h. r.
Jón Sæmundur Sigurjónsson.



Fylgiskjal XII.


Tryggingastofnun ríkisins:

Kostnaðarmat fyrir heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.
(9. október 2003.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.